forsmekkurinn að því sem koma skal
Þá er fyrsta vaktin búin á Hróaskeldu og gekk hún bara nokkuð vel fyrir sig. Það mér töluvert á óvart hve margir eru þegar komnir, enda byrjar sjálf tónlistarhátíðin ekki fyrr en á fimmtudaginn. Núna eru hins vegar næstum öllu tjaldstæðin upptekin, og það tjaldsvæði sem var lengst í burtu og fámennast og átti að vera rólega svæðið, er eflaust orðið órólega svæðið núna þar sem öllum sem komu í gær var vísað þangað. Það er því svona hefðbundin fyllerísútilega í gangi núna nema hvað það eru svona 50.000 manns á henni! Ég ákvað hins vegar að sleppa upphituninni og mæta bara vel stemmdur á morgunn þegar hátíðin formlega byrjar klukkan 17:00. Ég verð líklega bara samt að horfa á fótboltann sem er sýndur á risaskjá, en það er líka stemming :)
Vinnan er ágæt, nema hvað ég þetta hús sem ég á að vera vakta, felur reyndar bara í sér að standa við girðingu í nokkra tíma, svara spurningum gesta um hitt og þetta, og rugla aðeins í fólki. Það er langskemmtilegast að vísa fólki í þveröfuga átt...segi svona :) Við svissum þó um hópa og förum í önnur verkefni á tjaldsvæðinu sjálfu eða grillsvæðinu. Það er ágætt til að fá tilbreytingu.
Annars er frekar gaman að horfa á þennan sirkus því flestir eru mjög skrautlegir. Fólk er ekki beint að klæða sig upp, heldur miklu frekar að klæða sig niður. Alla buxurnar sem rifnuðu yfir árið og draslaralegu bolirnir eru teknir fram og hárið ekki þvegið viku fyrir. Ekki er verra ef klippingu er sleppt amk tveimur manuðum fyrir. Allaveganna var einn sem kallaði á eftir stelpu að “hún megi ekki bara fara í sturtu sísvona, það er svindl” .
Mest annasamasti dagurinn verður samt að öllum líkindum sunnudagurinn, þegar ég verð að vinna um nóttina. Ég hélt fyrst að sú vakt yrði yrði rólegust þar sem fólk væri frekar líklega búið á því, en svo áttaði ég mig á því að eftir viku fyllerí, að þá er tjaldið líklegast ekki boðlegt fyrir næstu útilegu. M.ö.o. það verða þó nokkrar tjaldbrennurnar! Ekki mikið sem hægt er að gera við 5.000 brennandi tjöld...en það verður a.m.k. ekki leiðinlegt í vinnunni J