Drulluskelda
"Ertu að fara fiska?", var spurningin sem ég fékk þegar ég labbaði framhjá krökkunum í garðinum á laugardaginn. Nei, ég er að fara á FESTIVAL! Og "Fest" var það. Það hafði reyndar ekki svo mikið sem hvarflað að mér að fara á Hróann á fimmtudaginn þegar úrhellið var svo mikið, að það jafnaðist á við heildarúrkomu blautustu hátíðarinnar fyrir þessa. En það þýddi líka hins vegar að mikinn straum fólks lagði frá hátíðinni með enaga ósk þá heitari en að komast í heita sturtu og þurra sokka. Þeim langar ekki einu sinni að eiga bandið sem minjagrip og voru flestir tilbúnir í að selja það fyrir skiptimynt. Ég fékk mitt á 100 Dkr frá stelpuskjátu á Hovedbanegaarden og svo lá leið til saumakonunnar Ragnheiðar til að sauma það saman aftur, þar sem ég þurfti að klippa það af hendinni á stelpunni. Það gekk mjög vel, þrátt fyrir að bandið var mjög þröngt, þar sem stelpan var með svo granna handleggi. Smá stress og erfitt að sauma, en ekkert mál fyrir vana konu, og voila, eins og nýtt.
Og eins og mamma sagði alltaf, þegar maður klæðir sig eftir veðri, þá er ekkert sem heitir vont veður. Það var nú reyndar ekki hægt að klæða af sig úrhellið á fimmtudeginum, en veðurspáin fyrir laugar- og sunnudag hljómaði uppá þurran og sólríkan sunnudag og smávægis vætu á laugardeginum (sem ég slapp reyndar við).
Ég ákvað því að skella mér uppeftir með bakpoka og bjór og vona að vörðurinn mundi ekki tosa bandið af mér við innganginn. Allar þesskonar áhyggjur voru óþarfar og flaug ég inn. Uppi á svæðinu beið mín hópur Íslendinga, sem kalla ekki allt ömmu sína, með samanlagða Hróareynslu uppá 13-15 ár. Ég gat alveg sleppt því að koma með tjald og vesenast að koma því fyrir í drullunni, því eitt yfirgefið hreint, þurrt tjald var í boði fyrir mig, með dýnu og alles. Ég þakka bara hverjum þeim sem átti útbúnaðinn alveg kærlega fyrir gistinguna, sem og dýnuna sem ég tók með heim.
Það var samt frekar fyndið að mæta þarna uppeftir, nýrakaður og tandurhreinn og í miklu meira stuði en allir aðrir, sem voru búnir að velkjast í drykkju og drullu alla seinustu viku. Ósjaldan var ég spurður hvað ég væri eiginlega að gera hérna, eins og þeir skildu ekkert í því! Mér fannst það reyndar ekki vera nein spurning að mæta fyrst ég gat fengið miðann svona ódýrt. Drullan var bara til að gera þetta skemmtilegra...
Dagskráin sem var eftir var kannski ekkert meiriháttar, en að sjálfsögðu voru þarna fullt af tónleikum sem mig langaði til að sjá. Ég missti reyndar af Flaming Lips og The Who á laugardeginum, en sá aftur á móti Red Hot Chili Peppers, Muse, Basement Jaxx, Wilco, Whitest Boy Alive, Arctic Monkeys og Datarock (smá videó hér). Allt alveg mjög góðir tónleikar og erfitt að gera uppá milli. Ætli Muse hafi ekki vinninginn, þrátt fyrir að mér var svo mikið mál að míga undir lokin, að ég bað til Guðs um að þetta skildi vera seinasta lagið. Hefði átt að taka Rolling Stones trikkið á þetta með plastglasið :)
Eftirminnilegust tónleikarnir voru samt eflaust settið sem Tiesto tók á Arena á laugardagskvöldið. Þvílíkt ljósasjó´ og þungur bassataktur að fátt getur slegið út þá upplifun.
Allt í allt, alveg asskoti góð skemmtun og alltaf jafn sérstök upplifun að fara á Hróann. Maður fær svona betri skilning á hvað FESTIVAL raunverulega er. Allt er svo stórt um sig, stærstu böndin að spila undir frábærum aðstæðum hvað hljóð og pláss varðar, 100 þús. manns á svæðinu og öll framkvæmd og skipulagning 100% eins og Dönum er einum lagið.
Svo er bara að mæta 2008 enda engin smá dagskrá komin...
Slatti af myndum hér
Úff, drullumall...
Fyrsta sinn sem eftirsjá að missa af Skeldu er lítil sem engin...
Þú ert hetja að æða í þetta svona seint, vitandi hvað beið þín...
Sjáumst þurrir á klakanum seinna í sumar...
hehe, skil það svo sem ágætlega. En sönnu hetjurnar mundi ég segja að voru þeir sem voru alla hátíðina! vi ses snart!