föstudagur, desember 29, 2006

Nú skal þegja, nú skal þegja...

Já, eitthvað þykir mér nú andi jólanna fara fyrir lítið hjá ónefndu rauðsokkufélagi hér í bæ.

“okkur í XXXX finnst það alveg óforsvaranlegt að sá ágæti siður að syngja jólalög sé að stuðla að kynjamisrétti og fyrirframgefnum hugmyndum um hlutverk kynjanna. Hér höfum við jólalag eins og “Nú skal segja…”, hresst og skemmtilegt lag sem mundi vera sungið á heimili mínu ef ekki væri fyrir þau hlutverk sem verið er að ýta að börnunum í textanum. Í textanum eru sagt um litlar stúlkur að “…þær sér greiða, þær sér greiða eins og litlar stúlkur gera” á meðan strákarnir fá að sparka í bolta úti í hressu veðri! Af hverju mega stelpur ekki líka sparka í bolta, eiga þær kannski bara að bíða við hliðarlínuna og hvetja manninn sinn til dáða öll uppstríluð og tilgerðaleg fyrir hann. Af hverju eru stelpur ekki að sparka í bolta í laginu líka? Að vísu mundi þá vera endurtekning á textanum en ég tel það þó betra en að vera kenna börnunum þessi óskup. Að auki mætti skipta þessari athöfn út fyrir e-ð meira hlutlaust eins og að hjóla.
Hvað varðar hin versin finnst mér að svipað eigi við þar. Ég er nú komin vel á sextugsaldur og ég tek enn í nefið og hef gert í fjörtíu ár og finnst því að gamlir kallar eiga ekki að hafa einkarétt á því eins og kemur fram í seinni part lagsins. Á meðan eiga gömu konurnar “…próna sokka, prjóna sokka, eins og gamlar konur gera…” Ég hef nú aldrei prjónað á ævinni minni og heldur ekki þær stöllur mina í kvennréttindaklúbbnum okkar!
Það er því komin tími til að fella burt þetta svokallaða jólalag af dagskrá jólahátíð grunnskóla enda fær barnabarnið mitt hún Hnallþóra ekki lengur að stíga fæti þar næstu jól ef þetta heldur áfram!

föstudagur, desember 22, 2006

hinar ymsu hliðar personuleikans

Maður verður bara allt annar maður þegar maður kemur heim á klakann...











Gleðileg Jól allesammen!!

Jólaljós

Já, þrátt fyrir að það sé búið að vera hreint ágætis veður í Danmörku, þá er það nú ekki ástæðan fyrir að maður sýnir smá lit hérna á Íslandi, og með því að sýna lit þá meina ég smá brúnku, og ekki kaffi hekldur meira svona kaffi með mjög mikilli mjólk. Við skelltum okkur nefninlega í einn stuttan ljósatíma fyrir heimför, aðeins 13 mínútur. Við erum samt ekki reyndari í ljósamálum en það, að þessi ljósatími reyndist meira en nóg og rúmlega það þar sem að ég gat ekki enn sofið á bakinu tveimur dögum seinna. Við nefninlega brunnum svona ágætlega og ég mun verr en Ragnheiður. Húðin er greinilega komin úr brúnkuæfingu. Nýjasti jólasveinninn er því kominn í bæinn sem leysir af Rúdolf með rauða nefið með prýði, því ég þurfti að stýra flugvélinni hingað til lands í gegnum blindhríð með rauðum glóandi bossanum mínum.

laugardagur, desember 16, 2006

Be still my beating heart

Sjón er sögu ríkari. Í þessu vídeóklippi eru nokkur af flottustu mörkum sem ég hef séð...verst að þau voru öll skoruð í eigið mark.



spurning um að skella nokkrum af þessum varnarmönnum í framlínuna?

fimmtudagur, desember 14, 2006

heavy stuff

Þökk sé Icelandair, þá getum við nú tekið 80kg, með okkur heim til Íslands (20 standard kg á mann, plús 5 í handfarangur, plús auka 15kg á mann, sinnum 2). Það er sannarlega kærkomið að þurfa ekki að hafa áhyggjur af yfirvigt með allar jólagjarnir fram og til baka yfir Atlantshafið. E-n veginn efast ég hins vegar um að við eigum eftir að fullnýta öll þessi kg. Þetta er kannski bara tilvalið tækifærið til að loksins flytja allt steinasafnið mitt frá Íslandi til Danmerkur...?

styttist í brottför...eða útför

Þá styttist í heimförina sem verður þann 18. Það vill einmitt svo til að það er sami dagur og ég mun fá einkunn og gagnrýni á ritgerðina mína frá leiðbeinanda mínum og einum utanaðkomandi yfirlesara. Vonum bara að maður komi heim í góðu skapi :) Það verður fróðlegt að heyra hvað þeir hafa að segja um ritgerðina. Það er ekki laust við að það sé smá skrekkur sé í manni, sérstaklega þar sem þessi utanaðkomandi er mjög vel að sér á þessu ADHD sviði. Hún gæti því dregið leiðbeinandan minn niður í einkunn sem vissi sjaldnast hvað um var að ræða. Oft og mörgum sinnum byrjaði gagnrýni hennar á þessum oðrum: "sko, ég er nú ekkert allt of vel að mér í þessu, en...". Mjög reassuring. En nú er ég sem sagt búinn að "self-handicap-a" mig, m.ö.o. afsaka fyrirfram mögulega slæma einkunn, svo það er ekki mér að kenna ef ég fæ ekki þá einkunn sem ég vill ;)

Annars er ég búinn að vera stússast í undirbúningi á atvinnuleit, þ.e.a.s. ég er búinn að skrá mig á atvinnumiðlun, gera CV (lífssöguatvinnuverkamannaskólalyklakippuskrá), og svipast um eftir atvinnumöguleikum. Ég er ekkert allt of bjartsýnn á að vera ráðinn sem sálfræðingur, en ætla mér að lifa í vonninni aðeins lengur. Það er nefninlega næst hæsta atvinnuleysi hjá sálfræðingum í Danmörku (11%) (á eftir guðfræðingum). Að auki er lang erfiðast að finna sér vinnu í stóru borgunum (Köben og Árósum). Siðast þegar spurðist til einnar í Árósum var hún búin að vera leita í 1 og hálft ár! Það er mun meiri eftirspurn út á landi og í minni bæjunum, en ég er ekki að fara flytja aftur, nei takk.

Svo segja meira að segja Danirnir sjálfir að danska með sterkum hreim sé ekki líkleg til vinsælda og gæti valdið neikvæðari viðhorfum en ella. Ekki að ég hafi tekið neitt sérstaklega eftir þessu. Á mínu tímabili hér hafa þeir næstum allir verið mjög þolinmóðir og vingjarnlegir og t.d. nær aldrei gripið til enskunnar, jafnvel í erfiðum tilfellunum :) Maður veit þó að aldrei hvað þeir hugsa...

Stefnan er því sett á að finna tímabundna vinnu til að auka aðeins tekjur og bæta dönskuna enn frekar. Hver hún verður veit nú enginn, vandi er um slikt að spá.

Sjáumst bráðum
Gun

e.s. Til hamingju Magga og Jónsi með stúlkubarnið. Velkomin í heiminn litla mín.

e.e.s. Hvað varðar viðhorf Dana til þeirra sem tala dönska mállýsku eða dönsku með hreim, þá eru komin ný gögn fram á borðið sem sýna að þetta er fyrst og fremst vegna þess að þeir eiga sjálfir mjög erfitt með að skilja sitt ylhýra tungumál (sjá myndband)

laugardagur, desember 09, 2006

heimsókn frá Bergen

Fyrir skömmu lauk heimsókn Jens pabba hennar Ragnheiðar til okkar en hann hafði verið hjá okkur í góða fimm daga. Tíminn var nýttur til að gera vel við sig og fórum við m.a. í heimsókn til ættingja þeirra feðgina hérna í Köben og fengum að kynnast danskri gestrisni og matargerð. Að auki var svo farið gjörsamlega yfir Strikið nokkrum sinnum og komið við á kaffihúsum eða pöbbum til að fá sér e-ð hressandi. Við fórum svo út að borða á ítalskan veitingastað hérna á Amager og kíktum á jólastemninguna og öll jólaljósin í Tívolíinu. Við brugðum okkur í skoðunarferð um fríríkið Christjaníu og kíktum á alíslenskan jólamarkað í Jónshúsi. Þar var nú reyndar lítið um jólavörur þar sem þetta voru aðallega íslenskir búðareigendur í Kaupmannahöfn en gaman engu að síður. Svo er nú jólabasar einmitt hjá Kristjaníu núna bráðlega, og það verður mjög fortvitnilegt að sjá hvaða hluti maður á eftir að sjá frá fólkinu sem býr þar :)

Góður, mjög góður.

Ég fór á Bondarann í gær, og kom út brosandi allan hringinn. Betri Bond mynd er nefninlega vandfundin, enda er hún mjög sérstök. Hún er svona í rauninni "Bond Begins" mynd sbr. Batman begins, þar sem farið er í saumana á fyrsta verkefninu hans sem oo7 njósnari. Að auki er forsaga af gefin af nokkrum svona einkennandi atriðum fyrir Bond (hvað þýðir 00 forskeytið, Martini drykkurinn kemur við sögu, hvernig fékk hann fyrsta Aston Martin bílinn ofl). Fyrir utan þau atriði þá er Bondarinn ekki sá sami og við þekkjum hann. Ekki nóg með að nýr leikari hefur tekið að sér hlutverk hans sem er mun sterklegri og harðari en fyrri týpurnar, heldur hegðar hann sér oft öðruvísi en maður er vanur. Hann gerir ýmis mistök, á það til að verða vandræðalegur, lætur skapið hlaupa með sig gönur ofl. Að lokum þá eru sama sem engin svona tæki sem Bondarinn hefur alltaf haft innan handar; líkt og úr til að keyra bílinn sinn eða penna sem er sprengja. Persónan Q kom t.d. ekkert við sögu í myndinni. Mér finnst reyndar mjög gott að tjúna aðeins niður myndina (sbr. það var enginn ósýnilegur bíll líkt og í Die antoher day). Í stuttu máli sagt, þá er hún mun raunsærri en margar, og sérstaklega nýlegri Bondmyndirnar.

Spurningin er því hvort um "raunverulega" Bondmynd er um að ræða? Að mörgu leyti er það hún ekki. Hann er þó að mestu leyti sama persónan og áður, kaldhæðinn, hnyttinn, og oftast pollrólegur. Það verður samt mjög spennandi að sjá hvernig næstu myndirnar verða. Hvort þessi reynsla á að hafa skapað þann Bond sem við þekkjum. Það er ýmislegt sem bendir til þess, þar sem t.d. það var ekki fyrr en í lokin sem við heyrðum "Bond" lagið, og hann kynnti sig á sinn sérstaka máta: Bond, James Bond.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Jólagjöfin í ár handa okkur er fundin!!

Ég held ég fari að fordæmi félaga míns úr boltanum, og óski mér sokka úr H&M þar sem á standa dagar vikunnar, þ.e.a.s. eitt sokkarpar sem stendur á mánudagur, annað sem stendur á þriðjudagur o.s.frv. Þetta geri ég ekki aðeins til að vita hvaða dagur er hverju sinni, heldur einnig til að einfalda pörun á sokkum eftir hvern þvott. Það er nefninlega ansi leiðinlegt að þurfa grannskoða hvern sokk fyrir sig til að sjá hvaða litur er á honum (dökkblár, dimmblár, svartur, aðeins dekkri svartur, og aðeins ljósari svartur) til að vita hvaða sokkar passa saman. Það hjálpar heldur ekki að Ragnheiður á sömuleiðis helling af svörtum eða dökkleitum sokkum sem auðveldar pörunina ekki.
Þetta hefur hingað til valdið því að við erum oft í hálf-mislitum sokkum og orðið að athlægi og útskúfun úr vinahópum vegna þessa. Það er því ekkert grín að vera í mislitum sokkum.

ICE ICE BABY

Ég held að ég taki mig til og láti forsvarsmenn IceBank (SPRON) vita að nafn þetta nýja nafn þeirra er eitt það hallæristlegasta sem undirritaður hefur séð. Það er svo klisjukennt og barnalegt að það mætti halda að 5 ára krakki væri að vinna í markaðssetningardeildini þeirra. Það vantar bara meðfylgjandi slagorð til að fullkomna þetta: "IceBank, the coolest bank in the world", eða "IceBank, from the coolest place in the world". Það mætti reyndar nýta sér þetta í öðrum tilvikum: "IceBank, freezes your assets faster than anyone else".

Heitir hann þá Ísbanki á íslensku, eða hvað? Líklegst ekki. Það er aldeilis verið að huga að ylhýra móðurmálinu þar. Þetta er að gerast á meðan það er verið að þýða titla kvikmynda frá ensku yfir á íslensku. Meðan ég man, að þá er mín spá að a.m.k. þrjár myndir á ári muni heita "Á tæpasta vaði".

Kv

Gunni Iceman

hvað hefur þú verið að bardúsa undanfarna daga?

Eftir að hafa skilað ritgerðinni gefst nú tími til ýmis konar afþreyingar og dundurs. Ég fór til dæmis búinn á körfuboltaæfingu núna á föstudaginn, var í fótbolta að venju á þriðjudaginn, og svo er ég að fara í fyrsta skiptið á handboltaæfingu í köld! Það verður fróðlegt að sjá hvernig maður finnur sig þar í þessu mikla "kontakt" sporti. Ég ætla að geta mér til um að hornastaðan passi vel við mig enda hafa margir smáir og knáir leikmenn verið þar í gegnum tíðina, líkt og Gummi Gumm.

Ég hef samt líklega sjaldan verið jafn grannur og ég er í dag, og líklega hefur mikil brennsla í fótboltanum í sumar ásamt kyrrstöðusetu yfir ritgerðinni haft mikið að segja. Ég er nefninlega þannig, að ég þyngist ekki við það að gera ekki neitt. Eina leiðin fyrir mig til að þyngjast er að borða eins og skepna og stunda líkamsrækt. Stefnan er því að byrja í ræktinni bráðlega, en mér finnst ekki borga sig að byrja fyrir jólin. Allar þessar harðsperrur og óþægindu sem fylgja fyrstu vikunni eða tveimur í ræktinni mundu verða til einskins. Ég veit nefninlega að ég mundi ekki vera sérstaklega duglegur yfir jólafríið, og mundi því þurfa upplifa harðsperrur dauðans aftur á ný eftir áramót. Slagorðið gæti því verið "fylla uppí kjólinn eftir jólin", en þar sem ég er reyndar karlmaður að þá mund þetta ekki alveg passa...e-r uppástungur?

þriðjudagur, desember 05, 2006

símaleysi

Erum búin að segja upp heimasímanum okkar í nokkrar vikur, þar sem við erum að skipta um símafyrirtæki. Númerið kemur aftur í gildi eftir áramót, en gsm símarnir okkar eru enn í fullu fjöri

Standard Guestbook
Name: **
What is your email? **
Your homepage:
Where are you from?
Comments? **
This message is private
Site Feed