mánudagur, apríl 30, 2007

Í sól og sumaryl.

Það þýðir ekki annað en að blogga aðeins um veðrið hérna í Danmörku því það er búið að vera svo yndislegt undanfarið. Í síðustu viku fór hitinn uppí 25 gráður, þannig að við Gunni ákváðum að bjóða Óla og Louise í grill á Laugardeginum og ákváðum að hafa það kl 5 svo að við myndum ná að sitja útí sólinni og borða matinn. en nei nei þá ákváðu veðurguðirnir að skella nokkrum skýjum á himininn og vinda aðeins úr þeim já það byrjaði bara að rigna á grillkveldinu mikla en við áttum sem betur fer grillpönnu þannig að við elduðum bara inni og höfðum það mjög næs, spiluðum kanöstu og kíktum svo á loundromat og drukkum eins og einn öl. Annars var hún Tinna litla systir mín að segja mér þær skemmtilegu fréttir að hún er búin að fá vinnu sem aupair í san francisco frá 16 júní til desember ekki slæmt það og ég óska henni til hamingju með það.

Hrekkjalómurinn á leið til Íslands

En hvað Iceland Express komu með tilboðið sitt til Íslands, á góðum tíma. Nú get ég skotist í heimsókn á Klakann og séð stuttmyndina mína á stóra tjaldinu. Það verður spennandi að sjá hvernig hún kemur út þar. Reyndar veit ég ekki hvort ég geti nokkuð verið í salnum þegar hún er sýnd. Bara það að horfa á sjálfan mig leika á stóru tjaldi fyrir framan fullt af áhorfendum gæti reynst mér ofviða. En svo er nú ekkert víst að það verði mikið af áhorfendum á sýningunni. Ég man nefninlega þegar ég skilaði mynd inná þessa hátíð seinast þegar hún var haldin, fyrir fimm árum síðan, að þá voru aðeins tveir áhorfendur: ég og dómarinn. Reyndar fækkaði um einn í salnum, því dómarinn fékk nóg og ákvað að yfirgefa salinn! Vegna þessa er ég ekki enn búinn að taka Hugleik Dagsson í sátt...helv..á honum. Það er víst óþarfi að taka það fram, að myndin hlaut engin verðlaun í það skiptið :)

En bjartsýnin er ríkjandi í þetta skiptið. Mynd þessi er samt gerð af áhugamönnum, og nokkuð öruggt að það verða myndir eftir fagmenn á þessari hátíð. Ég ætla samt sem áður að vona það besta, myndin er það góð...að mínu mati :)

Annars er hún öll að koma til. Fyrsta klipp af henni er tilbúið og næst er það eftirvinnslan á hljóðinu og myndgæðunum. Ég er því miður ekki sérstaklega lunkinn við þá gerð, en veit sem betur fer um nokkra aðila hér á landi sem gætu veitt mér hjálparhönd. Eru e-r fleiri þarna úti sem gætu gert slíkt hið sama...? Allir aðstoðarmenn fá að sjálfsögðu nafnið sitt á "credit" listann í lok myndar ;)

sunnudagur, apríl 22, 2007

Þá er enn ein helgin búin og þessa helgina var Hjördís í Köben með leikskólanum sem hún vinnur á. Það var gaman að hitta hana kíkti með henni og vinnufélögunum á djammið fórum á diskótek, fyrsta skipti sem ég geri það hérna úti svaka stórt og flott. Svo fór ég á laugardeginum með henni á Strikið, aðalega var HM tekið með trompi, við skulum segja að það hafi verið lítið eftir á hillunum þegar við yfirgáfum svæðið hehe.
Annars er Gunni að fara að vinna uppá leikskóla með mér næstu 2 mánuði, hann er að fara að vera stuðningsfulltrúi fyrir einhverfan strák. Það verður skrítið að vera sona að vinna saman en örrugglega bara gaman og að tala dönsku saman hehe þýðir ekkert að fara að spjalla saman á íslensku í vinnunni.
Svo er hún litla systir mín Tinna að koma í byrjun maí. Þá ætlum við að kíkja til Malmö og jafnvel á Louisiana safnið og aldrei að vita nema við komum við á Strikinu. Annars erum við sona eila búin að negla niður dagsetningu fyrir heimför. Ekki búin að kaupa flugmida sem við verðum held ég að fara bara að drífa í. Við komum heim í kringum 1. ágúst. Erum allavegana búin að segja upp íbúðinni og verðum að vera farin út 31 júlí. Þá er það bara klakinn sem tekur við. Það verður erfitt að segja bless við góða veðrið hérna úti og allt það, en á móti koma allir góðu kostirnir við Ísland. Fjölskylda og vinir. Ég þarf reyndar að fara út 2 til 3 til að fara í próf og verja lokaritgerðina gúlp gúlp.
Nóg í bili Ragnheidur

fimmtudagur, apríl 19, 2007

Sól, sól, burt með þig...

Loksins kom smá rigning og kuldi. Nú get ég dundað mér við að klippa stuttmyndina mína inni í lokuðu herbergi, án þess að Íslendingurinn komi upp i manni og segji manni að fara út og njóta góða veðursins. Sú vinna gengur bara ágætlega, eftir nokkra byrjunarörðugleika, þar sem ég var orðinn ansi ryðgaður í þessari vinnslu. þrjár og hálf mínúta er komin af alveg prýðisklipptu efni. En það er þó margföld sú vinna eftir. Alveg get ég tapað mér í þessu, enda hin besta skemmtun og góð losun á skapandi kröftum, sem hafa alltof lengi fengið að liggja í dvala. Stefnan er svo sett á að skila myndinni inná Stuttmyndadagar Reykjavíkur, sem er sú stærsta held ég sinnar tegundar heima, fyrir áhugamenn jafnt sem og atvinnumenn. Skilafrestur er 12. maí, svo nú er um að gera að láta hendur standa fram úr ermum og vona að veðrið haldist vont :)

Það er þó aukin pressa á að skila myndinni í tíma, búin að gera vart við sig, þar sem gott atvinnutækifæri var að koma uppá yfirborðið. Ragnheiði hefur greinilega leiðst þetta hangs í mér og ákveðið að grípa í taumana, því hún kom með þær gleðifregnir í gær, að það vantar stuðningspædagóg á leikskólanum hennar frá 1. maí. Voru hún og leikskólastjórinn alveg á því að ég væri rétti maðurinn í verkið og var ég því alveg hjartanlega sammála. Sér í lagi þó þar sem ég fæ námið mitt metið sem pædagog, og fæ því samsvarandi laun. Ég er því aftur á leið í leikskólann, aftur, þar sem þetta mun vera annað starf mitt á leikskóla á seinustu mánuðum.

mánudagur, apríl 16, 2007

Í sól og sumaryl

Sælt veri fólkið, já, spurst hefur út að ég sé útdauð í þessum bloggheimi, en ég reyni að krafsa í bakkann enn. Allt gott að frétta það er búið að vera þvílíkt gott veður hérna seinustu daga með toppdegi í dag 23 gráður, ég get ekki sagt að ég geti kvartað. Tengdó komu í heimsókn um helgina eða frá miðvikudegi til sunnudags. Það var nú ýmislegt brallað, kíkt í Fields og á Strikið þar sem Margrét gerði ofurgóð kaup á 2 leðurjökkum. Það var borðaður góður matur og hygget. Skoðuðum Óperuna, Svarta demantinn og íslenska sendiráðið.


Inní einhverju svaka listaverki eftir færeyskan listamann



Óperan

Í sjóstrætó

Eg ætla að reyna að vera aðeins duglegri að blogga vona að ég standi við það. Ragnheidur

Þeir eru nú meiri grallararnir...

...krakkarnir frá Ungdomshusinu, hehe.




Voru semsagt búin að líma götunafnið Jagtvej 69 (sem er sama gata og Ungdomshuset stóð við) á flestöll götuskilti í miðborg Köben og víðar. Ekki gaman að vera nýbyrjaður að vinna sem póstberi með þetta hverfi, segi ég bara...

þriðjudagur, apríl 10, 2007

páskar

Þá eru hinir mjög svo ánægjulegir páskar liðnir, sem samanstóðu aðallega af rólegheitum heimafyrir með blandi af matarboðum og póker.

Á föstudaginn langa hittumst við nokkrir boltastrákar og tókum í spil. Merkilegt nokk var það aftur ég og Gussi sem enduðum með að fara í einvígi fram á nótt. Heppnin var þó ekki með mér í þetta skiptið. Það var hefðbundin bjórdrykkja með spilinu, en á e-n tímapunkti breyttist það nú, því allt í einu var Absinth flaska komin á borðið. Við smökkuðum reyndar bara á því, en þess má geta að það er töluverður ævintýrablær yfir þessu rótsterka (60%) áfengi. Sögur herma að í “alvöru” flösku af Absinth (sem er illfáanleg), þá fljóta litlar agnir af meskalíni með, sem verða til að fólk verður alveg útúr heiminum og fer að sjá litla græna álfa hér og þar. Engar frásagnir eru þó af slíkum furðuverðum eru frá kvöldi þessu (því miður :), enda bara venjuleg flaska sem við höfðum undir höndum.


Páskadagurinn var samt einna bestur. Þá fórum við í páskefrokost heim til Óla og Louise, þar sem setið var að snæðingi í fjóra tíma, og skálað samviskusamlega fyrir páskunum með köldum snafsi og páskaöli. Þar var mikið hlegið og spjallað, og komst ég meðal annars að því, að ég var sá eini við borðið sem mundi eftir því úr barnæsku að eiga botninn af páskaegginu mínu, inni í ísskáp á þriðja degi páska, þakið tannförum. Flestum hlakkaði til að komast í botninn, en ég átti hins vegar erfiðara með að klára hann. Ég mundi því líklegast komast ansi nærri ímyndinni af því sem Joey í Friends óttast mest, þ.e.a.s. maður sem borðar hálft snikkers, og geymir svo afganginn þar til seinna :). Ég er bara svo mikill leifari í mér, enda Leifsson.

Við fórum reyndar töluvert fyrr heim en aðrir, því við áttum einnig von á frændfólki mínu frá Íslandi seinna um kvöldið. Þar var um heldur hefðbundara íslenskt boð að ræða, en lambasteikin, a la Gun, með kartöflum og sósu var þar í boði. Maður var því ansi mettur að deginum liðnum.


Sem sagt, fínni páski liðinn. Hann er samt ekki jafn eftirminnilegur og hjá honum Ragga félaga mínum. Held ég skelli bara link inná síðuna hans, því þetta er alveg þess virði að lesa í heild sinni.

föstudagur, apríl 06, 2007

loksins

Núna sit ég hérna heima og er loksins byrjaður aftur á verki sem hófst fyrir tæpum tveimur árum. Það er að segja, stuttmyndin sem ég tók upp sumarið 2005 er loksins komin á klippiborðið. Það eru ansi margar ástæður fyrir að ég hef ekki byrjað á henni fyrr en nú: vöntun á tölvu til að klippa han, nóg að gera í skólanum, praktíkinni, og kandídatsritgerðinni, sem ég veit að hefði tekið enn lengri tíma en ella. Aðallega er það samt mín eilífa frestunnarárátta. Ég á nefninlega mjög erfitt að byrja á svona verkefni sem ég veit að getur verið mjög erfitt, þrátt fyrir að mér þykir það mjög skemmtilegt.

Kannski ástæðan fyrir því að ég veit að þetta á eftir að vera erfitt, er sú að ég lék aðalhlutverkið í myndinni, og þarf því að horfa uppá ansi lélegan leik hjá mér :) Hálf vandræðalegt á tíðum. Leikurinn verður nefninlega enn verri við hliðiná samleikurum mínum, sem flestir eru nemendur við Leiklistaskóla Íslands, eða útskrifaðir leikarar. Svo er plús allt það sem fór úrskeiðis við tökurnar: hljóðið oft á tíðum lélegt (eða bara alveg fjarverandi!), lýsingin svo lítil að maður þarf að píra augun til að sjá e-ð. Það er því ansi erfitt að horfa upp á meistarverkið sitt verða verra og verra eftir því sem maður sér meira af því. En ég mun vonandi ná að lappa aðeins upp á verstu hlutana með góðri klippingu.

En sem sagt, svo að ég geti klippt myndina, er nú búið að bætast í tölvufjölskylduna. Enda er ekkert heimili til nú til dags, nema þar séu a.m.k. þrjár tölvur. Ég keypti eina notaða Dell á den blå avis á 2.500, fann svo skjá á 200, og svo tölvuleikinn Battlefield 2 á 80 :) Bara það að kaupa einnig tölvuleikinn mun borga upp tölvuna á no time, því þá fer ég ekki á netkaffihús að spila hann. Kannski verst að ég var ekki búinn að kaupa hann fyrr, og spara mér þannig enn meiri pening! Ég bara átti aldrei von á því að hann væri eins vanabindandi og raun bar vitni.

Nú sit ég hér og skrifa meðan myndefnið er að færast frá vídeóupptökuvélinni yfir á tölvuna, og fann smá hungur læðast yfir mig. “Djö….” hugsaði ég, þar sem ekkert er til til að narta í, og allar verslanir lokaðar þar sem það er föstudagurinn langi. Eða hvað? Hvað með alla múslimana? Þeir halda ekki upp á páskana. Ég kíkti því aðeins útúr húsi í fyrsta skipti í tvo daga, og sá mér til mikillar undrunnar að það iðaði bara allt að lífi. Allar sjoppur, pizzastaðir, bakarí og meira að segja blómasalinn höfðu opið. Og það eru sko ekki bara múslimar eða útlendingar sem reka þessar verlsarnir. Og svo er hægt að skella sér á tónleika í kvöld með Mika fyrir áhugasama. Það er því ekki mikil hætta á að manni leiðist eða brenni inni vídeólaus yfir páskana…

páskahret

Það má lítið út af bregða í klæðnaði þegar farið er út úr húsi um þetta leyti í Danmörku. Það voru nefninlega örugglega 18 gráður um seinustu helgi, og ég var að deyja út hita á skyrtunni einni saman. Páskahretið lét síðan á sér kræla, þ.e.a.s. loftið kólnaði mikið, en sólin hélt áfram að skína. Sólin villir um fyrir manni, og fyrir vikið fer maður eilítið léttklæddari útúr húsi fyrir vikið. Það er líklega ástæðan fyrir því að ég hef eytt fyrri hluta páskanna innandyra með hálsbólgu og beinverki. Alltaf fell ég í þessa gildru...ætla greinilega seint að læra.

Standard Guestbook
Name: **
What is your email? **
Your homepage:
Where are you from?
Comments? **
This message is private
Site Feed