Icelandair Open
Um seinustu helgi má segja að innanhúsfótboltatímabilið endaði með stæl. Fótboltamótið Icelandair Open var haldið uppí Gladsaxe þar sem 9 lið voru skráð til leiks, öll frá Köben fyrir utan tvö frá Íslandi.
Guðrún var með tvö lið, þar sem liðið sem ég spilaði með, komst í undanúrslit eftir frekar léttan riðil. Við lentum þar á móti sekkjunum úr handboltanum, þar sem eitt af inntökuskilyrðinum er að bolurinn nái ekki fyrir neðan nafla. Það er samt greinilegt að bjórdrykkja þeirra meðan á mótinu stóð var ekki til að skemma fyrir þeim, því eins og undarlegt og það hljómar, að þá vann handboltaliðið fótbotaliðið. Við hljótum þá að vinna þá í handbolta, eins og Ingvi mælti svo röklega af vörum. Ingvi var líklegast óheppnasti spilarinn á mótinu, því eftir aðeins 3 mínútur í fyrsta leiknum okkar, náði hann að snúa sig ansi illa á ökklanum.
Eftir að þeir voru komnir úr að ofan, reyndu þeir ólmir að faðma alla þátttakendur innilega. Minnti sú sjón illþyrmilega á atriðið úr myndinni "Along Came Polly" þegar Stiller var að spila körfubolta við gaurinn sem var ber að ofan :)
Annars þurftu handboltakapparnir að flýta sér heim eftir verðlaunaafhendinguna, þar sem þeir höfðu mælt sér mót við nokkra af mótmælendum Ungdomshuset. Mótmælendurnir voru búnir að falast eftir kröftum þeirra til að kasta grjóti og múrsteinum, sem eins og gefur að skilja, ætti að vera nokkuð sem handboltamenn væru góðir í.
Við mætttum því öðru liðinu frá Íslandi í leik um þriðja sætið, sem samanstóð af nokkrum hnökkum sem upprunalega hétu "Vonda Liðið". Þeir báru það nafn með rentu, því þeir voru alklæddir svörtu, og höfðu orð á sér fyrir að spila hart. Seinna breyttu þeir reyndar nafninu sínu í Ice Guys Butterflies, sem var aftur á móti mesta "gay" nafnið á mótinu. Þeir reyndust því engin mótstaða og 3. sætið í höfn. Gummi náði meira að segja að leika listir sínar þegar hann tók við bolta á lofti og skoraði viðstöðulaust með hælsendingu beint í hornið. Það voru fleiri á sammála glæsileika þessa marks, því hann hlaut verðlaun frá Icelandair fyrir tilþrif mótsins, sem var flugferð fram og tilbaka fyrir tvo.
Seinna um kvöldið hittust liðin á o´Learys, þ.e.a.s. þeir sem voru ekki með heimsókn frá tengdaforeldrunum (sem var svona helmingurinn), og skáluðu fyrir hreint ágætis móti.