föstudagur, mars 02, 2007

Hvor var du, i to tusind og syv?



Það hefur líklegast farið fram hjá fæstum sem fylgjast með fréttunum hér og heima, að miklar óeirðir brutust út í gær, í kjölfar rýmingar á félagsmiðstöð íbúa við Norðurbrú. Eftir að hafa horft á mótmælin, þann 16.des síðastliðinn, í sjónvarpinu, ákvað ég þennan dag að fara sjálfur á stúfana og sjá þennan dýragarð með eigin augum...og hressandi var það.

Það var búið að ákveða að ef húsið yrði rýmt, yrði efnt til mótmæla við Blågardsplads samdægurs klukkan 17:00. Ég mætti því á svæðið með myndavélina, ásamt tugum annarra ljósamyndara og fréttastöðvafólks. Ansi rólegt var til að byrja með, enda höfðu verstu ólátaseggirnir verið handteknir fyr rum daginn þegar húsið var rýmt með áhlaupi sbr. blogg Ragnheiðar hér að neðan. Inní húsinu voru gerð upptækar gasgrímur, kylfur, fjöllin af steinum, og margar eldsprengjur sem nota átti þegar húsið yrði rýmt. Engir venjulegir prakkarar þar á ferð greinilega, og alveg ljóst að þessir “atvinnumótmælendur” sem voru frá útlöndum og tóku þátt í mótmælunum 16.des, finnast einnig í Danmörku í stórum stíl.
Þegar þarna var komið sögu var stemmingin frekar afslöppuð, og fólk bara að spjalla og drekka öl.



Þegar klukkan var orðin rúmlega fimm, flykktist fólk hins vegar hvaðanæva að, og straumurinn fór að berast upp eftir Nörrebrógötu í langri mótmælendagöngu. Löggan var við öllu viðbúin og fylgti eftir seinustu mótmælendunum í göngunni uppeftir götunni. Sjaldan hef ég séð jafn marga klædda í svartar úlpur og hettupeysur, og alveg pottþétt að North Face búðin hefur selt allar úlpurnar sínar þennan dag. Margir voru hins vegar forvitnir vegfarendur eins og ég, sem tóku myndir í gríð og erg, og höfðu gaman af. En gamanið átti eftir að kárna...





Ég var mjög aftarlega í göngunni og sá ekkert hvað gerðist fremst. Stundum sást þó í sást í reyk, heyrðist í sprengingu eða e-r læti fremst í göngunni. Þá hlupu kannski nokkrir tilbaka í hræðslu, sem smitaði svo út frá sér þannig að allt í einu komu 100 ungmenni hlaupandi í átt að manni, án þess að vita eiginlega af hverju. Þetta gerðist nokkrum sinnum, en maður náði þó alveg að halda ró sinni.




Þegar gangan stöðvaðist, við vegatálma lögreglunnar, góðan spotta frá þessu blessaða Ungdomshusi, magnaðist stemmingin smám saman. Þeir róttæku sem voru með hettur og grímur voru komnir fremst og voru að henda grjóti eins og brjálæðingar að lögreglunni. Lögreglan þusti fram og reyndi að hafa hendur í hári þessara einstkalinga. Við þetta æstist múgurinn, og tívolíbombur og sprengjur fóru að springa í kringum mann með þeim afleiðingum að ég varð ansi skelkaður. Þá kom ansi flott útspil lögreglunnar í ljós. Þeir keyrðu mörgum lögreglubílum inn í nokkra staði þvögunnar og “splittuðu” henni þannig upp. Ég vissi ekkert hvað myndi gerast næst, því skyndilega var ég innilokaður með óeirðalögreglu beggja vegna við mig. Þeir voru hins vegar mjög rólegir og sögðu öllum að róa sig niður og ganga í röð framhjá sér. Við það róaðist hópurinn mikið og ég hélt í alvöru að þetta væri allt og sumt. Mótmælendurnir voru hins vegar ekki að baki dottnir...

Þarna var farið að skyggja og hver lögreglubíllinn á fætur öðrum sást þeysa fram hjá fólki sem fór uppá gangstéttina. Þaðan köstuðu ansi margir köstu steinum, flöskum og málningarpokum í átt að bílunum.


Mótmælendur hófu að henda ýmsu drasli á göturnar og búa þannig til vegatálma sem lögreglan keyrði svo í gegnum á fullum hraða. Um leið og þeir voru farnir hins vegar, hópaðist fólk aftur saman með drasl og bjó til nýjan vegatálma. Nú hófu þeir hins vegar að kveikja í þeim og myndaðist risastórt bál við miðja götuna. Ætli það hafi ekki verið um þetta leyti sem ég áttaði mig á að þetta væri sko alls ekkert að vera búið, og ætti eftir að verða mun alvarlegra. Um þetta leyti slokknaði á öllum ljósastaurunum í kring og mótmælendur ráku upp mikil stríðsöskur. Sprengjugnýr heyrðist við og við og ástandið var farið að líkjast borgarastríði meir og meir.

Þarna ákvað ég að nóg væri komið að þessu rugli, enda þurfti ég að mæta á fund skömmu seinna vegna sjálfboðarvinnu sem ég hafði skráð mig í. Það var líka kannski eins gott, því skömmu seinna skutu lögreglumenn táragasi að mótmælendum og splundruðu þannig hópnum.

Þetta var þó aðeins byrjunin. Mótmælin áttu eftir að standi til klukkan 4 um nóttina, víðsvegar um borgina, þar sem nokkrir bílar, ótalmörg hjól og ruslagámar urðu eldi að bráð. Líklega á ég eftir að heyra skrautlega lýsingu frá Óla sem býr við Kristjaníu, en þar voru einmitt ansi öflug mótmæli við enda götunnar þar sem hann býr. Það var þó líklegast húsgagnabúðin Vstergaard Mobler, sem kom einna verst útúr mótmælunum. Búðin er ein sú dýrasta í Köben og selur rándýr húsgögn líkt og margar vörur og stóla eftir Arne Jacobsen, sem kosta allt uppí hálfa milljón...og brenna líka víst svona hrikalega vel.

Vona að eigangi þessa bíls hafi verið tryggður!

Það er svo skipulögð dagskrá fyrir mótmælendur út næstu viku, svo nú er kannski tækifærið fyrir Icelandair, að skipuleggja “Riot Weekwend in Copenhagen” fyrir áhugasama utangarðsunglinga á Íslandi!


Allaveganna er búist við meiri látum um helgina. Ég held ég láti þetta samt gott heita af minni “þátttöku”....í bili MOHAHAAHA!

Hérna getið séð gott video af atburðunum undir flipanum "Video", "torsdag kl.22:00" og svo "dagens kampe".

2 Comments:

At 10:24 e.h., Anonymous Nafnlaus said...

Takk fyrir fína frásögn. Ég sé þig fyrir mér kastandi málningardósum á lögregluna.

 
At 1:15 f.h., Blogger Drekaflugan said...

Þú þekkir mig vel :) Það vantaði bara þig til að við gætum verið með alvöru læti ;)

 

Skrifa ummæli

<< Home

Standard Guestbook
Name: **
What is your email? **
Your homepage:
Where are you from?
Comments? **
This message is private
Site Feed