Góður, mjög góður.
Ég fór á Bondarann í gær, og kom út brosandi allan hringinn. Betri Bond mynd er nefninlega vandfundin, enda er hún mjög sérstök. Hún er svona í rauninni "Bond Begins" mynd sbr. Batman begins, þar sem farið er í saumana á fyrsta verkefninu hans sem oo7 njósnari. Að auki er forsaga af gefin af nokkrum svona einkennandi atriðum fyrir Bond (hvað þýðir 00 forskeytið, Martini drykkurinn kemur við sögu, hvernig fékk hann fyrsta Aston Martin bílinn ofl). Fyrir utan þau atriði þá er Bondarinn ekki sá sami og við þekkjum hann. Ekki nóg með að nýr leikari hefur tekið að sér hlutverk hans sem er mun sterklegri og harðari en fyrri týpurnar, heldur hegðar hann sér oft öðruvísi en maður er vanur. Hann gerir ýmis mistök, á það til að verða vandræðalegur, lætur skapið hlaupa með sig gönur ofl. Að lokum þá eru sama sem engin svona tæki sem Bondarinn hefur alltaf haft innan handar; líkt og úr til að keyra bílinn sinn eða penna sem er sprengja. Persónan Q kom t.d. ekkert við sögu í myndinni. Mér finnst reyndar mjög gott að tjúna aðeins niður myndina (sbr. það var enginn ósýnilegur bíll líkt og í Die antoher day). Í stuttu máli sagt, þá er hún mun raunsærri en margar, og sérstaklega nýlegri Bondmyndirnar.
Spurningin er því hvort um "raunverulega" Bondmynd er um að ræða? Að mörgu leyti er það hún ekki. Hann er þó að mestu leyti sama persónan og áður, kaldhæðinn, hnyttinn, og oftast pollrólegur. Það verður samt mjög spennandi að sjá hvernig næstu myndirnar verða. Hvort þessi reynsla á að hafa skapað þann Bond sem við þekkjum. Það er ýmislegt sem bendir til þess, þar sem t.d. það var ekki fyrr en í lokin sem við heyrðum "Bond" lagið, og hann kynnti sig á sinn sérstaka máta: Bond, James Bond.