úr einu í annað
Nú er maður ansi blautur eftir hjólatúrinn heim úr ræktinni, alveg hellidemba alla leiðina. Djöfull var það hressandi, hlýtt logn og rigning....gerist ekki betra :) Ég held í alvöru talað að ég hafi ekki upplifað "vont" veður hérna í Árósum síðan ég kom hingað aftur í sumar. Ég set vont undir gæsalappir því ég tek tillit til tímans á árinu. Ef það er kalt, þá er heiðskýrt, ef það rignir þá er hlýtt, ef það snjóar þá er logn o.s.frv. Ég ætla þó að segja hér 7, 9, 13 svo þetta verði ekki eins og á laugardaginn þegar ég var að hrósa happi mínu fyrir að hafa aldrei meiðst alvarlega í fótbolta og náði svo að meiða mig á fyrstu mínutunni á æfingunni á sunnudaginn...ekkert alvarlegt en svona smá áminning. Annars hlakkaði mikið í mér að komast heim til litla engilsins míns sem er nýkominn á heimilið. Já, það voru fest kaup á litlum kraftmiklum skratta sem heitir Denon M33 sem er lítil stereosamstæða. Náðum að finna eina góða án kassettutækis, skreytingum og öðru óþarfa fylgihlutum, á útsölu núna á sunnudaginn. Og ég verð bara að segja að gömlu diskarnir öðlast bara nýtt líf, feitir bassatónarnir hans Etienne de Crecy og angurværir gítarhljómar Nick Drake ná núna að smjúga alla leið innað beini og veita enn meiri ánægju en áður. Veit samt ekki hvort nágrannarnir eru jafn ánægðir með breytinguna hehe...En við erum nú búin að hlusta á hvern tónlistarmanninn á hæðinni fyrir ofan okkur vera fara í gegnum gripin sín klukkan hálf tólf á kvöldin, þannig að ég held að við eigum alveg smá inni :)