prima courso...
Jæja, þá er maður kominn tilbaka og er heldur betur búinn að hafa það gott í fríinu. Ekki mikið búinn að vera hugsa um hið daglega líf heldur aðallega að reyna fara ekki fram úr sjálfum mér í brekkunum. Ferðalagið sem búið var að bíða eftir með spenningi bæði hjá mér og systur minni og pabba, hófst þó á sorglegan hátt. Fyrsti dagurinn, vaknað klukkan átta, slafrað í sig morgunmat og líkaminn hlaðinn kolvetnum fyrir átökin. 9:30, kominn við botn Laghi 5 lyftunnar sem var kláfur sem átti að bera okkur upp 2660 metra hæð. Spenna var kominn í hópinn, uþb 30 íslendingar að bíða eftir Everti fararstjóranum í að hleypa af startbyssunni. Þegar upp var komið blöstu við brekkur sem ekki allir hafa séð. Við áttum að taka 3 ferðir í þessari brekku áður en við færðum okkur úr stað. Það hafði þó ekki snjóað lengi, sem sagt smá hart á köflum og við vorum á nýjum skíðum (leigðum í viku á 5000 kall). við vorum sem sagt ekki á heimavelli og ákveðin í að taka fyrstu ferðirnar rólega svona til að venjast aðeins. Ok, ekkert mál. Ákváðum að taka bláu brekkuna í þeirrar rauðu. Allt gengur vel . Við erum hálfnuð niður fyrstu brekkuna og gleðin leynir sér ekki. úff...þetta verður skemmtileg vika. Heyrðu...hvort áttum við að fara alla leið niður eða stoppa hér við þennan stól? Hmm... hérna sé ég skilti sem er alblátt nema með svörtum bókstafi sem á stendur 3. Heyrðu hérna er blá brekka, segi ég, förum hana niður. Hin tvö fylgja eftir. Skyndilega sé ég risastór flóðljós beggja vegna við brekkuna og að hún virðist verða brattari og brattari á metra fresti. Ég sný mér við, heyrðu!! Þetta er brekkan sem við sjáum frá svölunum, Tre-tre, aðalkeppnisbrekkan! Þau eru lögð af stað, og virðast spjara sig ágætlega. Við ákveðum að skella okkur niður. Vííííí´....þetta er gaman, hraðinn mikill og brekkan krefjandi svo maður verður að hafa sig allan við. Ég enda á botninum og sný mér við. Það er e-r stopp í brekkunni. Hildur liggur í henni miðri og hefur misst skíðið. Það er einhver að bogra yfir henni og hjálpa henni á fætur. Hmmm...hún fer ekki í skíðið heldur lætur sig renna niður á rassinum. Hvað er að, ahh... hún ætlar niður á sléttu til að fara í það. Nei, svo gott var það nú ekki...því miður. Hildur datt og skemmdi krossböndin!! Á fyrsta deginum, í fyrstu ferðinni. Það verður ekki skíðað meira hjá henni í nokkrar vikur :( Vonbrigðin ólýsanleg og við pabbi fundum svo sannarlega til með henni. Í þessu tilviki er erfitt að sjá hvar þetta fall var fararheill, nema þá ef litið er á að mildi væri að ekki færi verr...